Nostalgía og jákvæð áhrif hennar

Ég sat mjög áhugaverðan fyrirlestur í seinasta mánuði hjá Constantine Sedikides sem er prófessor í félags og persónuleikasálfræði.  Verð hreinlega að deila efni hans með ykkur (í stuttu máli).

Við þekkjum öll saman nostalgíu en áhrif hennar þekkjum við eflaust ekki eins vel. Klassísk dæmi um nostalgíu eru t.d. að finna einhverja lykt eða heyra lag í útvarpinu sem tekur okkur einhver ár aftur í tímann og yljar okkur við einhverjar góðar minningar.

Um leið og  lyktin er ekki lengur til staðar eða tiltekið lag er búið, hefði ég haldið að áhrif nostalgíunnar væru einnig gengin yfir. Án þess þó að hafa velt þessu mikið fyrir mér.

Constantine er búinn að gera mjög áhugaverðar rannsóknir á þessu efni og kemur í ljós að áhrifin eru mun meiri og langvarandi en ég hafði nokkurn tímann hugsað út í.

Hér eru nokkur dæmi um áhrif hennar:

  • Eykur bjartsýni
  • Eykur innblástur
  • Eykur sköpunargleði
  • Eykur hvatningu

Gerð var rannsókn þar sem að einstaklingar voru látnir hugsa um einhvern ánægjulegan atburð úr fortíðinni og niðurstöðurnar voru á þá leið að einstaklingunum leið betur með sjálfan sig og urðu þar af leiðandi bjartsýnni, meira skapandi og fylltust innblæstri. Þetta varð svo til þess að framtakssemi þeirra varð meiri þann dag.

Sköpunargleði einstaklinga var mæld þannig að þátttakendurnir sem voru í nostalgíuhópnum urðu opnari fyrir nýrri reynslu og urðu þar af leiðandi meira skapandi í skrifum sínum.

Annar þátttakenda hópur samanstóð af nemendum sem voru á leið í próf. Var þeim skipt upp þannig að helmingurinn var beðinn um að hugsa um einhvern viðburð úr æsku sinni sem vakti upp góðar tilfinningar. Kom í ljós að nostalgíu hópurinn stóð sig betur á prófinu en samanburðarhópurinn.

Hvort sem þú ert haldin(n) ritstíflu, stopp í einhverjum leiðinlegum vinnu verkefnum, ert á leið í próf, hundleið á maka þínum eða einfaldlega  þreyttur á íslenska veðrinu þá mæli ég með því að þú setir einhverja góða tóna úr fortíðinni á og athugir hvort það hafi ekki jákvæð áhrif á framgang dagins.

Með nostalgíu kveðju

alma

 Mynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson